All Posts By

olafur

Beinhimnubólga

Beinhimnubólga er í daglegu tali notað sem samheiti yfir ákveðin einkenni.  Algengast er að einkennin stafi af bólgu og ertingu í beinhimnu og aðliggjandi sinum (medial tibial stress syndrome). Einnig geta verið þrengsl í vöðvahólfum í leggnum eða álagsbrot í sköflung og því er mikilvægt að fá rétta greiningu á vandamálið. Þrátt fyrir að um sé að ræða þrjár mismunandi greiningar eru staðsetning einkenna og orsakir svipaðar.

Einkenni
Verkir við miðlæga brún sköflungs eftir álag og mikil þreifieymsl, sérstaklega við neðri hluta hennar. Ef ekkert er gert í málinu getur ástandið versnað, þá kemur verkur í álagi og getur jafnvel þróast í hvíldarverk. Talið vera ein algengustu álagsmeiðslin í legg í íþróttum.

Orsakir
Mögulegar orsakir eru margar og oft er um samspil margra þátta að ræða. Staða fótar (platt fótur), vöðvastífni eða ójafnvægi í vöðvastyrk, lág beinþéttni og hár líkamsþyngdarstuðull (BMI) geta aukið hættuna á að fá verki í legg. Óheppilegur eða mikið slitinn skóbúnaður, hart undirlag og of mikið álag eða breytingar á álagi og undirlagi geta einnig verið áhrifavaldar.

Almennar ráðleggingar
Draga þarf úr eða breyta því álagi sem ertir upp einkennin, rétt er að endurskoða æfingaáætlun og forðast að hlaupa á hörðu og ósléttu undirlagi. Kæling eftir álag getur hjálpað til að draga úr verkjum. Nauðsynlegt er velja skó í samræmi við stöðu fóta og gott er að leita ráða hjá sérfræðing hvað það varðar. Göngugreining og innlegg geta hugsanlega hjálpað.

Ökklatognanir

Ökklatognanir eru algengir áverkar sem geta átt sér stað hvort sem er við íþróttaiðkun eða almenna hreyfingu. Algengast er að einstaklingurinn misstígi sig og fóturinn snúist inn á við af svo miklum krafti að eitt eða fleiri liðbönd á utanverðum ökkla togna umfram getu, skaðinn getur verið allt frá því að örfáir þræðir rifni yfir í að liðband slitni alveg sundur. Á sama hátt getur orðið tognun á liðböndum á innanverðum ökkla en það er mun sjaldgæfara.

Einkenni 
Staðbundinn verkur við „kúlurnar“ á ökklanum. Oft verður talsverð bólgumyndun og jafnvel blæðing sem kemur fram sem mar. Sárt er að stíga í fótinn og hreyfiskerðing kemur vegna bólgu og verkja. Ef skaðinn er mikill gæti maður fundið fyrir óstöðugleika í liðnum þegar frá líður.

Orsakir
Áhættuþættir ökklatognana geta verið breytilegir eftir íþróttagreinum, aldri, kyni og getustigi. Mikilvægt er að velja skóbúnað í samræmi við athafnir og undirlag, til dæmis henta hlaupaskór ekki til knattspyrnuiðkunar. Algengt er að þeir sem hafa tognað einu sinni á ökkla lendi í því aftur en sýnt hefur verið fram á að með góðri endurhæfingu má draga mikið úr þeirri áhættu.

Almennar ráðleggingar 
Mikilvægt er að setja þrýsting á ökklann (t.d. teygjubindi) sem fyrst og hafa hann á í um 48 klst, gott er að kæla í ca 15 mín á 2 tíma fresti og hafa hátt undir fætinum til að draga úr verkjum og bólgumyndun (RICE). Mikilvægt er að hlífa ökklanum við of miklu álagi næstu daga, hugsanlega þarf að nota hækjur til að draga úr álagi en samt á að stíga í fótinn eins og verkir leyfa. Ef verkir eru miklir eða viðkomandi getur ekki stigið í fótinn ætti að leita aðstoðar læknis strax. Bati tekur mislangan tíma, allt frá nokkrum vikum upp í marga mánuði.

Stoðkerfisáverkar

Hver sem er getur orðið fyrir áverka á stoðkerfi, hvort sem er keppnisíþróttafólk eða almenningur við vinnu og dagleg störf. Um er að ræða tvær megin gerðir áverka, annars vegar áverka vegna slysa og hins vegar áverka vegna of mikils álags.

Áverkar vegna slysa

Þessir áverkar eru algengir í hópíþróttum þar sem návígi eru tíð og/eða mikið um snöggar hreyfingar og stefnubreytingar. Oftast er auðvelt að greina áverka vegna slysa þar sem ástæðan er gjarnan augljós og áverkinn afmarkaður. Meðferð beinist því nær eingöngu að meininu.
Ýmsir utanaðkomandi þættir geta aukið slysahættu s.s. vallarskilyrði, veður og útbúnaður. Einnig geta undirliggjandi kvillar aukið líkur á slysum.

Áverkarnir eru margs konar s.s.:

 • Sina- og liðbandaslit
 • Beinbrot
 • Tognanir/maráverkar
 • Skurðir
 • Heilahristingur

Bráðameðhöndlun miðar að því að hindra mikla blæðingu í vef og þarf að eiga sér stað sem fyrst eftir að meiðsl verða þar sem mesta blæðingin á sér stað á fyrstu 10 mínútunum eftir óhappið. Mikilvægt er að fylgja meðferðinni eftir með nákvæmari skoðun.

Álagsáverkar

Álagsáverkar eru oft til komnir vegna samspils margra ólíkra þátta og því eru orsakir þeirra ekki eins augljósar og orsakir slysa. Álagsáverkar eru hvað algengastir hjá keppnisíþróttafólki þar sem fer saman áköf og umfangsmikil þjálfun en þessir áverkar þróast gjarnan við einhæft og síendurtekið æfingaálag t.d. í langhlaupum, stökkum, kast- og boltagreinum. Orsakaþáttum álagsáverka má skipta í tvennt, ytri og innri þætti.
Ytri orsakir álagsáverka eru t.d. rangt/mikið æfingaálag, rangur/slitinn útbúnaður, veður, slæm vallarskilyrði.
Innri orsakir álagsáverka eru t.d. hryggskekkja, há/lág rist, mislangir fótleggir, vöðvamisræmi, slakt líkamlegt atgervi o.fl.

Algengir álagsáverkar:

 • Beinhimnubólga
 • Hnéáverkar, s.s. Jumper´s knee
 • Hásinabólga
 • Festumein við axlarlið
 • Tennis/golfolnbogi
 • Ýmis mjóbaksvandamál
 • Fótamein, s.s. Plantar fascitis

Meðferð álagsmeiðsla beinist að mörgum ólíkum þáttum. Meðhöndla þarf einkenni einstaklingsins en til að varanlegur bati náist er lykilatriði að greina og uppræta orsakavalda meinsins. Fyrirbyggjandi aðgerðir geta verið t.d. góður útbúnaður, rétt þjálfun með tilliti til umfangs og álags. Huga þarf að aðstæðum hverju sinni (veður, undirlag) og einnig að þáttum eins og næringu og hvíld svo eitthvað sé nefnt.

Sogæðanudd

Sogæðanudd er sérhæft nudd sem er mjög létt og sérstaða aðferðarinnar felst í takti og stefnu

Sogæðanudd:

 • eykur upptöku vessa
 • eykur motoriska virkni sogæða
 • færir vessa úr stað
 • mýkir harðnaðan bandvef

Bjúgur getur  myndast t.d. vegna:

 • hás blóðþrýstings
 • lágs próteinmagns í blóðinu
 • á síðari stigum hjartabilunar
 • meiðsla
 • bláæðabilunar
 • skertrar starfsgetu sogæðakerfisins

Orsök sogæðabjúgs:

 • skert starfsgeta sogæðakerfisins leiðir til að
 • flutningur á vessa raskast og/eða að
 • vökvi safnast fyrir í millivefina og myndar sogæðabjúg

HM í knattspyrnu 2018

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur hafið leik á HM í Rússlandi. Þeir náðu flottum úrslitum í fyrsta leik gegn Argentínu. Sjúkraþjálfarar og læknar liðsins koma úr Orkuhúsinu og óskum við þeim sem og hópnum öllum áframhaldandi velgengni á mótinu. ÁFRAM ÍSLAND.

Ísland á HM í handbolta.

Þessir hafa ekki beðið svona lengi enda tryggði karlalandsliðið í handbolta sér enn einn farseðilinn á úrslitakeppni HM í gærkvöldi og voru þar seinast árið 2017. Frábær árangur hjá hópnum. Óskum Elís Þór, Jón Birgi og hópnum öllum til hamingju með áfangann. ÁFRAM ÍSLAND.