Skip to main content
FræðslaÍþróttameiðsl

Beinhimnubólga

Með október 9, 2018No Comments

Beinhimnubólga er í daglegu tali notað sem samheiti yfir ákveðin einkenni.  Algengast er að einkennin stafi af bólgu og ertingu í beinhimnu og aðliggjandi sinum (medial tibial stress syndrome). Einnig geta verið þrengsl í vöðvahólfum í leggnum eða álagsbrot í sköflung og því er mikilvægt að fá rétta greiningu á vandamálið. Þrátt fyrir að um sé að ræða þrjár mismunandi greiningar eru staðsetning einkenna og orsakir svipaðar.

Einkenni
Verkir við miðlæga brún sköflungs eftir álag og mikil þreifieymsl, sérstaklega við neðri hluta hennar. Ef ekkert er gert í málinu getur ástandið versnað, þá kemur verkur í álagi og getur jafnvel þróast í hvíldarverk. Talið vera ein algengustu álagsmeiðslin í legg í íþróttum.

Orsakir
Mögulegar orsakir eru margar og oft er um samspil margra þátta að ræða. Staða fótar (platt fótur), vöðvastífni eða ójafnvægi í vöðvastyrk, lág beinþéttni og hár líkamsþyngdarstuðull (BMI) geta aukið hættuna á að fá verki í legg. Óheppilegur eða mikið slitinn skóbúnaður, hart undirlag og of mikið álag eða breytingar á álagi og undirlagi geta einnig verið áhrifavaldar.

Almennar ráðleggingar
Draga þarf úr eða breyta því álagi sem ertir upp einkennin, rétt er að endurskoða æfingaáætlun og forðast að hlaupa á hörðu og ósléttu undirlagi. Kæling eftir álag getur hjálpað til að draga úr verkjum. Nauðsynlegt er velja skó í samræmi við stöðu fóta og gott er að leita ráða hjá sérfræðing hvað það varðar. Göngugreining og innlegg geta hugsanlega hjálpað.