Skip to main content
Flokkur

Íþróttameiðsl

Klemmueinkenni í öxl (Impingement syndrome)

Klemmueinkenni í öxl (Impingement syndrome)

 

Öxl 1Öxlin er svokallaður kúluliður þar sem kúlan er efri endi upphandleggs og liðskálin, sem kúlan fellur inn í, er hluti af herðablaðinu. Sökum þess hve liðskálin er grunn miðað við lögun kúlunnar má segja að öxlin fórni stöðugleika sínum fyrir hreyfanleika. Öxlin reiðir sig því mikið á vöðvahóp sem umlykur hana  og heldur kúlunni í liðskálinni. Nefnist vöðvahópur þessi einu nafni rotator cuff. Vöðvar liggja yfirleitt ofan á beinum en í öxlinni liggja rotator cuff vöðvarnir hins vegar milli beina þ.e. efri enda upphandleggs og hluta herðablaðsins sem nefnist axlarhyrna (acromion). Þessi  uppröðun gerir liðinn útsettari fyrir svokallaðri klemmu (impingement) og einkennum sem þessari klemmu fylgja (impingement syndrome).

 

Orsakir

Klemmueinkenni í öxl eru álagseinkenni. Upphaf einkenna má yfirleitt rekja til endurtekinna smááverka, s.s. í íþróttum eða í líkamlega krefjandi vinnu, eða til langvarandi einhæfs álags í óhagstæðri líkamsstöðu, t.d. í tölvu- og skrifstofuvinnu.

 

Einkenni

Í fyrstu getur verið erfitt að lýsa verknum eða staðsetja hann nákvæmlega en með tímanum verður hann oft staðbundinn við framanverðan eða utanverðan axlarliðinn. Óþægilegt getur verið að bera hluti og sérstaklega að lyfta hlutum upp fyrir axlarhæð. Algengt er að fólk finni fyrir verkjum á nóttunni og óþægindum við að liggja á öxlinni. Önnur algeng einkenni eru máttminnkun og stirðleiki í öxlinni.

 

Almennar ráðleggingar

Mikilvægast er að minnka og/eða breyta álaginu sem öxlin verður fyrir og bæta starfsemi rotator cuff vöðvanna og annarra stöðugleikavöðva í kringum öxlina og herðablaðið.

Hægt er að minnka álagið á öxlina með því að lyfta handleggnum eins lítið upp fyrir höfuð og mögulegt er eða nota tröppu eða upphækkun ef nauðsynlegt er að Öxl 2sækja eitthvað sem er hátt uppi. Eins geta góðar svefnstöður hjálpað til ef verkir gera vart við sig að nóttu til (sjá mynd hér til hliðar).

Gott er að fá leiðbeiningar frá sjúkraþjálfara um hvaða æfingar henti best svo að meðferðin verði sem markvissust. Það tekur tíma að þjálfa upp vöðvana og er því mikilvægt að sýna þolinmæði og staðfestu við æfingar. Ef hins vegar lítið ávinnst á 12 vikum er ráðlegt að fá álit bæklunarlæknis um hvort þörf sé á frekara inngripi.

 

Heimildir

 

Texti

 1. Roald , B., & Maehlum, S. (2004). Shoulder. Clinical Guide to Sports Injuries (bls. 151-188). Oslo: Gazette bok.
 2. “Impingement Syndrome.“ Cleveland Clinic. The Cleveland Clinic Foundation, 1995-2014. Vefsíða. 18. maí 2015. <http://my.clevelandclinic.org/services/orthopaedics-rheumatology/disease….
 3. „Rotator cuff injury. Quieting a painful shoulder.“ Mayo Clinic Health letter. 28.11 (2010): bls. 1-3.

 

Myndir

 1. „Rotator Cuff Injury.“ Harvard Health Guide. Harvard Health Publications, 2010-2015. Vefsíða. 18. maí 2015. <http://www.health.harvard.edu/shoulders/rotator-cuff-injury>.
 2. „Rotator Cuff Injuries.“ The Southampton Shoulder Clinic. The Shoulder Clinic, 2012. Vefsíða. 18. maí 2015. <http://www.southamptonshoulderclinic.co.uk/shoulder-problems/rotator-cuf….

Skrifað af Sólveigu Þórarinsdóttur sjúkraþjálfara.

Álagsmeiðsli, hvað er það?

 Í knattspyrnu geta komið fyrir margar gerðir af áverkum. Bráðaáverkar eru trúlega algengastir eins og t.d. tognarnir og mar/högg áverkar, sem gerast við eitt afmarkað atvik í leik eða æfingu. En oft fara leikmenn að finna fyrir verkjum/óþægindum eftir álag/æfingar án þess að neitt hafi komið fyrir. Verkurinn versnar svo oft við áframhaldandi álag. Ef þetta er tilfellið þá gæti hér verið um álagseinkenni að ræða (Overuse syndrome). Hér áður fyrr var þetta oft talið vera vaxtarverkir hjá börnum og unglingum enda voru þessir krakkar oft mjög virkir.

Þetta fyrirbæri er í raun bólga í vef (vöðva, sin, beini, bandvef) sem hefur orðið fyrir of miklu álagi og álagið valdið smá trosnun/tognun/sliti í vefnum. Vefurinn fær síðan ekki næga hvíld til að gera við skemmdina áður en að næstu æfingu kemur og þá verður meiri skemmd og þannig vindur þetta upp á sig þar til íþróttamaðurinn gefst upp á verknum og hvílir eða leitar sér faglegrar hjálpar.

Algeng álagseinkenni í knattspyrnu eru t.d. beinhimnubólga framan á leggnum, verkir ofan eða neðan við hnéskel, svokölluð hlaupara- og hopparahné (runners/jumpers knee), þreytubrot í beinum, hásinabólgur, náratognun (ef ekki er hægt að tengja tognunina við eitt ákveðið atvik þá getur verið um álagseinkenni að ræða).

Hvað veldur álagseinkennum? Hægt er að skipta því í tvo þætti, innri og ytri ástæður. Innri ástæður eru mismunandi líkamsgerð okkar eins og t.d. staða fóta (plattfótur/ há rist), mislangir fótleggir, hryggskekkja, að vera hjólbeinóttur/kiðfættur, misræmi í vöðvum (mun sterkari framan í læri samanborið við aftan í læri) svo eitthvað sé nefnt. Eitthvað sem gerir það að verkum að líkaminn þarf að beita sér aðeins öðruvísi eða vinna meira en ella. Ytri þættir eru hlutir eins og lélegur skóbúnaður, að skipta oft í viku um æfingaundirlag (parket, möl, gervigras), rangt æfingaálag og/eða rangar æfingar, að fara of geyst af stað eftir t.d. meiðsli eða langt frí.

Ef íþróttamaður er kominn með álagmeiðsl er mjög mikilvægt að draga úr álaginu. Það þarf ekki endilega að hætta æfingum alveg, en draga það mikið úr/stýra álaginu þannig að hægt sé að æfa alveg verkjalaust, til að ýfa ekki upp einkennið aftur. Gamla góða “no pain no gain” á ekki við hér!! Sé ekki hægt að æfa án verkja þá ber að taka sér hvíld frá æfingum í einhvern tíma. Mikilvægast er að fá rétta greiningu og finna út hvaða þættir eru að valda einkennunum. Leitið því til fagmanns eins og læknis eða sjúkraþjálfara sem getur greint hvaða innri eða ytri þættir eru að skapa vandamálið. Bólgueyðandi meðferð hjálpar oft mikið, eins og bólgueyðandi lyf eða bólgueyðandi gel/krem sem borið er á svæðið. Kæling og síðar hitameðferð á svæðið ef þarf og hugsanlega sjúkraþjálfun sé tilfellið það slæmt. En aðalatriðið er að hlusta á hvað líkaminn er að segja þér. Verkur er alltaf merki um að verið sé að ofbjóða einhverju í líkamanum. Hlustaðu og taktu mark á honum. Leitið ráða hjá fagfólki um hvernig best sé að stilla álagi í hóf. Góð þumalfingursregla er að auka ekki álag meira en um 10% á viku til að gefa líkamanum tækifæri til að aðlagast.

Hásinavandamál

Álagstengdir verkir í hásin eru algengt vandamál hjá hlaupurum en einnig vel þekkt hjá boltaíþróttafólki, golfurum og göngufólki. Auk verkja í hásin við álag kemur stundum kúla/bólguhnútur á sinina sem er aumur þegar ýtt er á. Viðkomandi er haltur fyrst eftir að farið er framúr á morgnana en svo hverfur/minnkar verkurinn gjarnan eftir nokkrar mínútur.

Orsakir
Orsakir hásinavandamála eru ekki full rannsakaðar en æfingaálag er stór áhættuþáttur. Mjög algengt er að æft sé á of miklu álagi eða að álag sé aukið of hratt. Skóbúnaður, skekkjur í fótum og vöðvastífleiki eru þættir sem einnig geta haft áhrif og ber að skoða og vinna með ef við á.

Almennar ráðleggingar
Mikilvægast er að draga úr því álagi sem veldur verkjunum eða breyta um álag með því t.d. að hjóla eða synda í stað þess að hlaupa, hins vegar er ekki heppilegt að stoppa og gera ekki neitt. Nauðsynlegt er að teygja vel á kálfavöðvum eftir álag og vanda val á skóbúnaði. Ef einkenni lagast ekki á nokkrum vikum ber að leita álits hjá fagmanni.

Slit á fremra krossbandi.

Slit á fremra krossbandi

Fremra krossbandið liggur frá neðanverðum lærlegg að ofanverðum sköflungi (sjá Mynd 1). Helsta hlutverk þess er að koma í veg fyrir að sköflungurinn renni fram ACL mynd 1eða snúist miðað við lærlegginn auk þess sem það  hjálpar til við hliðlægan stöðugleika. Fremra krossbandið gegnir því mjög mikilvægu stöðugleikahlutverki í hnénu og hefur mikil áhrif þegar það slitnar.

 

Einkenni

Þegar krossbandið slitnar finnst gjarnan, og heyrist jafnvel, smellur. Í flestum tilvikum bólgnar hnéð töluvert og getur bólgan aukist í nokkrar klukkustundir á eftir með tilheyrandi verkjum. Þetta á þó ekki alltaf við og eru dæmi um það að hnéð bólgni lítið sem ekkert og viðkomandi finni því lítið sem ekkert til.

Vegna þess hve mikilvægu stöðugleikahlutverki fremra krossbandið gegnir upplifa þeir sem það hafa slitið að hnéð sé óstöðugt og hafa það gjarnan á tilfinningunni að hnéð muni gefa undan við þungaburð.

 

Orsakir

Fremra krossbandið er það liðband í hnénu sem algengast er að slíta og verður slitið oftast við íþróttaiðkun eða í útivist af einhverju tagi. Í 70-80% tilvika slitnar ACL mynd 2krossbandið án snertingar  (noncontact), t.d. við lendingu eftir stökk þar sem hnéð er of beint (í yfirréttu) eða hnéð er bogið og leitar inn á við (valgus). Eins er algengt að slitið verið við gabbhreyfingar eða aðrar snöggar stefnu- eða hraðabreytingar.

Í hinum 20-30% tilvika slitnar krossbandið við áverka (contact). Þá er yfirleitt um að ræða utanaðkomandi áverka/högg sem þvingar hnéð inn á við eða í mikla yfirréttu.

 

Almennar ráðleggingar

RICE-meðferðinni ætti að beita sem fyrst eftir að viðkomandi slasar sig. Í henni felst hvíld (rest), kæling (ice), þrýstingur (compression) og hálega (elevation) og er hægt að lesa sér til um meðferðina hér á heimasíðunni okkar undir Fræðsla – RICE meðferðin. Ef grunur leikur á sliti á fremra krossbandi, t.d. ef viðkomandi upplifir að hnéð sé laust eða gefi undan við þungaburð, ætti hann/hún að forðast snöggar hreyfingar og gera hlé á íþróttaiðkun og annarri hreyfingu sem krefst álags á hnéð. Einnig er ráðlegt að leita ráða hjá fagmanni (lækni eða sjúkraþjálfara) eins fljótt og auðið er. Framhaldið er svo ákveðið út frá skoðun í samráði við bæklunarlækni.

 

 

 

Heimildir

 

Texti

 1. Bahr, R & Mæhlum, S (2004). Clinical Guide to Sports Injuries. Oslo: Gazette bok.
 2. Friedberg, RP (2015). Anterior Cruciate Ligament Injury. Sótt 9. júní 2015, af vefsíðu UpToDate: http://www.uptodate.com/contents/anterior-cruciate-ligament-injury?source=search_result&search=acl&selectedTitle=1%7E23.
 3. Hewett TE, Myer GD, Ford KR, et al (2005). Biomechanical measures of neuromuscular control and valgus loading of the knee predict anterior cruciate ligament injury risk in female athletes: a prospective study. American Journal of Sports Medicine. 33(4), 492-501

 

Myndir

 1. Friedberg, RP (2015). Anterior Cruciate Ligament Injury. Sótt 9. júní 2015, af vefsíðu UpToDate: http://www.uptodate.com/contents/anterior-cruciate-ligament-injury?source=search_result&search=acl&selectedTitle=1%7E23.
 2. Hewett TE, Myer GD, Ford KR, et al (2005). Biomechanical measures of neuromuscular control and valgus loading of the knee predict anterior cruciate ligament injury risk in female athletes: a prospective study. American Journal of Sports Medicine. 33(4), 492-501.

 

Skrifað af Sólveigu Þórarinsdóttur sjúkraþjálfara.

RICE meðferðin

RICE meðferð er ferli sem miðar að því að hindra bráða blæðingu í vef eftir áverka. Örvefsmyndun í kjölfarið verður minni og líkur á langvarandi óþægindum minnka. Einnig styttir það endurhæfingartíma og viðkomandi nær fyrr bata. Ferlið samanstendur af fjórum þáttum.

Rest – Hvíld

Markmiðið með hvíld er að koma í veg fyrir frekari meiðsli og draga úr aðstreymi blóðs á áverkasvæðið. Eftir slys er því mikilvægt að hvíla og eftir áverka á neðri útlim ætti jafnvel að nota hækjur í nokkurn tíma til að draga úr álagi.
Mikilvæg fyrstu 48-72 klst
Sársauki er besti mælikvarðinn á álag
Hvíld er vanmetinn þáttur í bataferli almennt!!

Ice – Kæling

Kæling er afbragðs skammtíma verkjastilling og hægir á aðstreymi blóðs. Bólgueyðandi áhrif kælingar eru þó minni en áður var talið. Hægt er að notast við margs konar kælingu s.s.: Ís, kælipoka, sprey, kalt vatn. Mikilvægt er að kæla ekki lengur en í 15-20 mínútur í einu vegna hættu á ofkælingu taugavefs.

Compression – Þrýstingur

Þrýstingur er mikilvægasti þáttur meðferðarinnar, blóðflæði undir þrýstingnum getur minnkað um allt að 95% á örfáum sekúndum! Vefja skal þéttingsfast með teygjanlegu bindi um áverkastaðinn og halda þrýstingi á í 48-72 klst eftir slys, jafnvel í lengri tíma. Varast ber þó að vefja of fast og fylgjast þarf með bólgu og verkjum viðkomandi. Hægt er að auka þrýstinginn staðbundið með kælipoka eða þrýstipúða.

Elevation – Hálega

Hálega er mikilvæg fyrstu mínúturnar eftir óhappið, lyfta þarf meiðslasvæði amk 30 cm upp fyrir hæð hjartans. Mælt með hálegu fyrstu 2 sólarhringana þegar setið er eða legið.

Ef verkir eru miklir skal leita álits hjá fagaðila svo fljótt sem auðið er.

Beinhimnubólga

Beinhimnubólga er í daglegu tali notað sem samheiti yfir ákveðin einkenni.  Algengast er að einkennin stafi af bólgu og ertingu í beinhimnu og aðliggjandi sinum (medial tibial stress syndrome). Einnig geta verið þrengsl í vöðvahólfum í leggnum eða álagsbrot í sköflung og því er mikilvægt að fá rétta greiningu á vandamálið. Þrátt fyrir að um sé að ræða þrjár mismunandi greiningar eru staðsetning einkenna og orsakir svipaðar.

Einkenni
Verkir við miðlæga brún sköflungs eftir álag og mikil þreifieymsl, sérstaklega við neðri hluta hennar. Ef ekkert er gert í málinu getur ástandið versnað, þá kemur verkur í álagi og getur jafnvel þróast í hvíldarverk. Talið vera ein algengustu álagsmeiðslin í legg í íþróttum.

Orsakir
Mögulegar orsakir eru margar og oft er um samspil margra þátta að ræða. Staða fótar (platt fótur), vöðvastífni eða ójafnvægi í vöðvastyrk, lág beinþéttni og hár líkamsþyngdarstuðull (BMI) geta aukið hættuna á að fá verki í legg. Óheppilegur eða mikið slitinn skóbúnaður, hart undirlag og of mikið álag eða breytingar á álagi og undirlagi geta einnig verið áhrifavaldar.

Almennar ráðleggingar
Draga þarf úr eða breyta því álagi sem ertir upp einkennin, rétt er að endurskoða æfingaáætlun og forðast að hlaupa á hörðu og ósléttu undirlagi. Kæling eftir álag getur hjálpað til að draga úr verkjum. Nauðsynlegt er velja skó í samræmi við stöðu fóta og gott er að leita ráða hjá sérfræðing hvað það varðar. Göngugreining og innlegg geta hugsanlega hjálpað.

Ökklatognanir

Ökklatognanir eru algengir áverkar sem geta átt sér stað hvort sem er við íþróttaiðkun eða almenna hreyfingu. Algengast er að einstaklingurinn misstígi sig og fóturinn snúist inn á við af svo miklum krafti að eitt eða fleiri liðbönd á utanverðum ökkla togna umfram getu, skaðinn getur verið allt frá því að örfáir þræðir rifni yfir í að liðband slitni alveg sundur. Á sama hátt getur orðið tognun á liðböndum á innanverðum ökkla en það er mun sjaldgæfara.

Einkenni 
Staðbundinn verkur við „kúlurnar“ á ökklanum. Oft verður talsverð bólgumyndun og jafnvel blæðing sem kemur fram sem mar. Sárt er að stíga í fótinn og hreyfiskerðing kemur vegna bólgu og verkja. Ef skaðinn er mikill gæti maður fundið fyrir óstöðugleika í liðnum þegar frá líður.

Orsakir
Áhættuþættir ökklatognana geta verið breytilegir eftir íþróttagreinum, aldri, kyni og getustigi. Mikilvægt er að velja skóbúnað í samræmi við athafnir og undirlag, til dæmis henta hlaupaskór ekki til knattspyrnuiðkunar. Algengt er að þeir sem hafa tognað einu sinni á ökkla lendi í því aftur en sýnt hefur verið fram á að með góðri endurhæfingu má draga mikið úr þeirri áhættu.

Almennar ráðleggingar 
Mikilvægt er að setja þrýsting á ökklann (t.d. teygjubindi) sem fyrst og hafa hann á í um 48 klst, gott er að kæla í ca 15 mín á 2 tíma fresti og hafa hátt undir fætinum til að draga úr verkjum og bólgumyndun (RICE). Mikilvægt er að hlífa ökklanum við of miklu álagi næstu daga, hugsanlega þarf að nota hækjur til að draga úr álagi en samt á að stíga í fótinn eins og verkir leyfa. Ef verkir eru miklir eða viðkomandi getur ekki stigið í fótinn ætti að leita aðstoðar læknis strax. Bati tekur mislangan tíma, allt frá nokkrum vikum upp í marga mánuði.

Stoðkerfisáverkar

Hver sem er getur orðið fyrir áverka á stoðkerfi, hvort sem er keppnisíþróttafólk eða almenningur við vinnu og dagleg störf. Um er að ræða tvær megin gerðir áverka, annars vegar áverka vegna slysa og hins vegar áverka vegna of mikils álags.

Áverkar vegna slysa

Þessir áverkar eru algengir í hópíþróttum þar sem návígi eru tíð og/eða mikið um snöggar hreyfingar og stefnubreytingar. Oftast er auðvelt að greina áverka vegna slysa þar sem ástæðan er gjarnan augljós og áverkinn afmarkaður. Meðferð beinist því nær eingöngu að meininu.
Ýmsir utanaðkomandi þættir geta aukið slysahættu s.s. vallarskilyrði, veður og útbúnaður. Einnig geta undirliggjandi kvillar aukið líkur á slysum.

Áverkarnir eru margs konar s.s.:

 • Sina- og liðbandaslit
 • Beinbrot
 • Tognanir/maráverkar
 • Skurðir
 • Heilahristingur

Bráðameðhöndlun miðar að því að hindra mikla blæðingu í vef og þarf að eiga sér stað sem fyrst eftir að meiðsl verða þar sem mesta blæðingin á sér stað á fyrstu 10 mínútunum eftir óhappið. Mikilvægt er að fylgja meðferðinni eftir með nákvæmari skoðun.

Álagsáverkar

Álagsáverkar eru oft til komnir vegna samspils margra ólíkra þátta og því eru orsakir þeirra ekki eins augljósar og orsakir slysa. Álagsáverkar eru hvað algengastir hjá keppnisíþróttafólki þar sem fer saman áköf og umfangsmikil þjálfun en þessir áverkar þróast gjarnan við einhæft og síendurtekið æfingaálag t.d. í langhlaupum, stökkum, kast- og boltagreinum. Orsakaþáttum álagsáverka má skipta í tvennt, ytri og innri þætti.
Ytri orsakir álagsáverka eru t.d. rangt/mikið æfingaálag, rangur/slitinn útbúnaður, veður, slæm vallarskilyrði.
Innri orsakir álagsáverka eru t.d. hryggskekkja, há/lág rist, mislangir fótleggir, vöðvamisræmi, slakt líkamlegt atgervi o.fl.

Algengir álagsáverkar:

 • Beinhimnubólga
 • Hnéáverkar, s.s. Jumper´s knee
 • Hásinabólga
 • Festumein við axlarlið
 • Tennis/golfolnbogi
 • Ýmis mjóbaksvandamál
 • Fótamein, s.s. Plantar fascitis

Meðferð álagsmeiðsla beinist að mörgum ólíkum þáttum. Meðhöndla þarf einkenni einstaklingsins en til að varanlegur bati náist er lykilatriði að greina og uppræta orsakavalda meinsins. Fyrirbyggjandi aðgerðir geta verið t.d. góður útbúnaður, rétt þjálfun með tilliti til umfangs og álags. Huga þarf að aðstæðum hverju sinni (veður, undirlag) og einnig að þáttum eins og næringu og hvíld svo eitthvað sé nefnt.