Skip to main content
Flokkur

Ökkli

Hásinavandamál

Álagstengdir verkir í hásin eru algengt vandamál hjá hlaupurum en einnig vel þekkt hjá boltaíþróttafólki, golfurum og göngufólki. Auk verkja í hásin við álag kemur stundum kúla/bólguhnútur á sinina sem er aumur þegar ýtt er á. Viðkomandi er haltur fyrst eftir að farið er framúr á morgnana en svo hverfur/minnkar verkurinn gjarnan eftir nokkrar mínútur.

Orsakir
Orsakir hásinavandamála eru ekki full rannsakaðar en æfingaálag er stór áhættuþáttur. Mjög algengt er að æft sé á of miklu álagi eða að álag sé aukið of hratt. Skóbúnaður, skekkjur í fótum og vöðvastífleiki eru þættir sem einnig geta haft áhrif og ber að skoða og vinna með ef við á.

Almennar ráðleggingar
Mikilvægast er að draga úr því álagi sem veldur verkjunum eða breyta um álag með því t.d. að hjóla eða synda í stað þess að hlaupa, hins vegar er ekki heppilegt að stoppa og gera ekki neitt. Nauðsynlegt er að teygja vel á kálfavöðvum eftir álag og vanda val á skóbúnaði. Ef einkenni lagast ekki á nokkrum vikum ber að leita álits hjá fagmanni.

Ökklatognanir

Ökklatognanir eru algengir áverkar sem geta átt sér stað hvort sem er við íþróttaiðkun eða almenna hreyfingu. Algengast er að einstaklingurinn misstígi sig og fóturinn snúist inn á við af svo miklum krafti að eitt eða fleiri liðbönd á utanverðum ökkla togna umfram getu, skaðinn getur verið allt frá því að örfáir þræðir rifni yfir í að liðband slitni alveg sundur. Á sama hátt getur orðið tognun á liðböndum á innanverðum ökkla en það er mun sjaldgæfara.

Einkenni 
Staðbundinn verkur við „kúlurnar“ á ökklanum. Oft verður talsverð bólgumyndun og jafnvel blæðing sem kemur fram sem mar. Sárt er að stíga í fótinn og hreyfiskerðing kemur vegna bólgu og verkja. Ef skaðinn er mikill gæti maður fundið fyrir óstöðugleika í liðnum þegar frá líður.

Orsakir
Áhættuþættir ökklatognana geta verið breytilegir eftir íþróttagreinum, aldri, kyni og getustigi. Mikilvægt er að velja skóbúnað í samræmi við athafnir og undirlag, til dæmis henta hlaupaskór ekki til knattspyrnuiðkunar. Algengt er að þeir sem hafa tognað einu sinni á ökkla lendi í því aftur en sýnt hefur verið fram á að með góðri endurhæfingu má draga mikið úr þeirri áhættu.

Almennar ráðleggingar 
Mikilvægt er að setja þrýsting á ökklann (t.d. teygjubindi) sem fyrst og hafa hann á í um 48 klst, gott er að kæla í ca 15 mín á 2 tíma fresti og hafa hátt undir fætinum til að draga úr verkjum og bólgumyndun (RICE). Mikilvægt er að hlífa ökklanum við of miklu álagi næstu daga, hugsanlega þarf að nota hækjur til að draga úr álagi en samt á að stíga í fótinn eins og verkir leyfa. Ef verkir eru miklir eða viðkomandi getur ekki stigið í fótinn ætti að leita aðstoðar læknis strax. Bati tekur mislangan tíma, allt frá nokkrum vikum upp í marga mánuði.