Skip to main content
Flokkur

Rannsóknir

Áhrif mismunandi meðferðarforma á einkenni og færni fólks með hásinavandamál.

Höfundur:

Álagseinkenni frá hásinum er mjög algengt vandamál bæði hjá íþróttafólki og hjá hinum almenna borgara. Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning á verkjum af völdum álagseinkenna frá hásinum. Þróuð hefur verið ný meðferð við hásinavandamálum og verður hún prófuð og borin saman við þekkt meðferðarform sem notað hefur verið með góðum árangri.
Tilgangur rannsóknarinnar er að bæta við þá þekkingu sem þegar er til staðar varðandi hásinavandamál og reyna að bæta þau meðferðarform sem eru notuð í dag.
Ekki er til mikið af viðurkenndum meðferðarformum sem hafa sýnt tölfræðilegan marktækan mun nema eksentrískar æfingar.

Skjöl tengd rannsókn:

Tengsl stoðkerfisverkja og hreyfingar.

Höfundur:

Ágrip

Bakgrunnur: Stoðkerfisverkir eru algengir hjá ungu fólki. Þeir greinast í börnum og algengið eykst fram á fullorðinsár. Stoðkerfisverkir eru algengari meðal kvenna en karla og algengustu verkjasvæðin eru mjóbak, háls og herðar. U-laga tengsl eru milli hreyfingar og stoðkerfisverkja, þannig að þeim sem hreyfa sig minnst og mest er hættara við verkjum en hinum. Þá hafa rannsóknir einnig sýnt tengsl stoðkerfisverkja við líkamsfitu og þrek.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að kanna algengi stoðkerfisverkja hjá ungu fólki og skoða hvort tengsl væru milli verkja og hreyfingar, þreks, beinþéttni og líkamsfitu. Þá var líka skoðað hvort tengsl væru milli hreyfingar, þreks og líkamsfitu fyrir 8 árum og stoðkerfisverkja í dag.

Framkvæmd: Alls tóku 457 þátt í rannsókninni. Þátttakendur voru 17 og 23 ára og höfðu allir tekið þátt í rannsókninni Lífstíll 9 og 15 ára Íslendinga árið 2003. Þau svöruðu spurningalista m.a. um stoðkerfisverki, mældur var blóðþrýstingur, hæð, þyngd, húðfellingar og mittismál. Þá tóku þau hámarks þrekpróf á hjóli, voru með hreyfimæla í viku og fóru í DXA skann fyrir beinþéttni og fituhlutfall.

Niðurstöður: Niðustöður sýndu að stoðkerfisverkir eru nokkuð algengir í ungu fólki. Hlutfallslega var algengast að þau væru með verki í neðra baki, næst algengast í herðum og öxlum, svo í hnjám og í efra baki. Marktækt fleiri konur en karlar voru með verki í herðum og öxlum, úlnliðum, efra baki, neðra baki og mjöðmum og marktækt fleiri í yngri en eldri árganginum voru með verki í hnjám og ökklum. Eftir að leiðrétt var fyrir kyni voru marktæk jákvæð tengsl milli heildartíðni stoðkerfisverkja og fituprósentu (HR=1,014 Cl:1,000-1,029, p=0,047) og líkamsþyngdarstuðul (HR=1,0 Cl:1,010-1,055, p=0,003). Tvær breytur frá rannsókninni 8 árum sýndu áhugaverð tengsl sem voru þó ekki marktæk; húðsumma (HR=1,004 95% Cl 1,000-1,008 og p=0,051) og þrek (HR=0,815 95% Cl 0,655-1,161 og p=0,068). Varanleiki stoðkerfisverkja sýndi marktæk tengsl við líkamsþyngdarstuðul bæði í dag (HR=1,027 95% Cl 1,003-1,052 og p=0,025) og fyrir 8 árum (HR=1,036 95% Cl 1,003-1,072 og p=0,033).

Ályktun: Það má því draga þá ályktun að líkamsþyngdarstuðull og fituhlutfall bæði í dag og fyrir 8 árum hafi mest áhrif á algengi stoðkerfisverkja hjá ungu fólki í dag.

Proximal effects of unloader bracing for medial knee osteoarthritis – analyses of muscle activation and movement patterns at the hip during walking.

Höfundur:

Freyja Hálfdanardóttir

Inngangur:

Talið er að einstaklingar með slit í miðlæga hluta hnjáliðar gangi með auknum bolsveiflum til að draga úr álagi á miðlæga hluta hnjáliðarins. Slíkar uppbótarhreyfingar gætu haft áhrif á vöðva-virkni og álag á liði í ganglimum og þar með einnig haft áhrif á hættu á að slit þróist í fleiri liðamótum. Álagsléttandi hnéspelkur eru notaðar til að draga úr einkennum slitgigtar sem eingöngu er bundin við annan hluta hnjáliðarins. Engu að síður er lítið vitað um möguleg áhrif álagsléttandi hnéspelkna á lífafl-fræðilega þætti í öðrum liðamótum í ganglimum og virkni í fráfærsluvöðvum mjaðmaliða sem geta haft áhrif á bolsveiflur. Hingað til hafa flestar rannsóknir á virkni spelkanna beinst að eldra fólki en mikilvægi spelkumeðferðar er væntanlega mest fyrir fólk undir 60 ára. Markmiðið með þessari rannsókn var að skoða hreyfingar bols og mjaðmaliða með lífaflfræðilegum aðferðum og greina vöðva-virkni í fráfærsluvöðvum mjaðma hjá tiltölulega ungum og virkum einstaklingum með slit í miðlæga hluta hnjáliðar. Einnig að kanna áhrif af álagsléttandi hnéspelku (UnloaderOne®) á þessa þætti.

Aðferð:

Úrtak rannsóknarinnar var 17 karlar (40-60 ára) með staðfest slit í miðlæga hluta hnjáliðar (II.-III. gráðu Kellgren-Lawrence) sem höfðu fengið læknisbeiðni um álagsléttandi hnéspelku. Viðmiðunarhópur samanstóð af 14 körlum án einkenna um slitgigt í hné. Hreyfimunstur og kraftvægi voru metin með þrívíddargöngugreiningu. Rannsóknarhópurinn var mældur með og án hnéspelku innan 48 tíma frá því að þeir fengu spelkuna og aftur að 4 vikum liðnum. Jafnlengdarstyrkur fráfærsluvöðva mjaðmar var mældur og rafvirkni m. gluteus medius (Gmed) og m. tensor fasciae latae (TFL) metin með yfirborðs vöðvarafriti. Árangur meðferðar var metinn með KOOS spurningakvarða og rannsóknarhóp skipt í tvennt, responders (R) og non-responders (NR) eftir skilgreiningu OARSI á hvort klínískt martækur árangur náðist eða ekki. Í tölfræðigreiningu voru notuð fylgnipróf, t-próf og dreifnigreining fyrir endurteknar mælingar og alpha ákveðið 0,05.

Niðurstöður:

Hóparnir voru sambærilegir hvað varðar aldur, líkamsþyngdarstuðul og staðlaðan styrk í fráfærsluvöðvum mjaðma. Skor á sjálfsmats kvörðum um verki og einkenni batnaði almennt hjá rannsóknarhópnum (p<0,05) en svörunin var breytileg. Bolhalli að stöðufæti mældist minni við hælslag (p=0,015) hjá báðum rannsóknarhópunum og seinkun varð á að bolhalli færðist frá stöðuhlið yfir á gagnstæða hlið, miðað við samanburðarhóp. Einnig var R hópur með stærra hreyfiútslag á bolhreyfingum í frontal plani en bæði NR og viðmiðunarhópur. Ekki mældist munur milli hópa eða hliða á liðferlum og kraftvægi um mjaðmaliði og engar breytingar fundust á þessum þáttum að 4 vikum liðnum. Í upphafi rannsóknar mældist ekki marktækur munur milli hópa eða hliða á hámarks virkni í Gmed án spelku og hámarks virkni TFL var meiri hjá R en viðmiðunarhóp (p<0,001) og NR (p<0,001). Meiri vöðvavirkni mældist í Gmed hjá R hóp við að nota spelkuna (p<0,01).

Ályktun:

Þrátt fyrir almenna hækkun á skori á sjálfsmatskvörðum svöruðu ekki allir þátttakendur spelkumeðferð. Hreyfiútslag bols í frontal plani minnkaði lítillega en þó tölfræðilega marktækt milli mælinga sem gæti haft áhrif á kraftvægi um hné vegna þess hve stór vogararmur bolsins er. Þeir sem náðu árangri með álagsléttandi hnéspelku á 4 vikum virtust beita mjaðmavöðvum ólíkt þeim sem ekki náðu árangri. Hugsanlega náðu þeir að nýta vöðvana á einhvern hátt til að hafa áhrif á álag og einkenni í hné. Með stærri rannsókn mætti hugsanlega greina mælanlega þætti sem gætu spáð fyrir um hvaða sjúklingar eru líklegir til að hafa gagn af meðferð með álagsléttandi spelku.

Skjöl tengd rannsókn:

Meiðsli í handknattleik karla á Íslandi.

Höfundur: Elís Þór Rafnsson
Inngangur:

Þrátt fyrir ríka hefð fyrir handknattleik hér á landi, og mikinn almennan áhuga, þá hafa engar rannsóknir verið birtar á tíðni og eðli meiðsla í handknattleik á Íslandi.

Efni og aðferðir:

Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja tíðni og alvarleika meiðsla í handknattleik karla á Íslandi, sem og þær leikaðstæður þegar meiðsli eiga sér stað. Rannsóknin var framskyggn. Í upphafi var 14 liðum úr tveimur efstu deildum karla boðin þátttaka í rannsókninni. 13 lið samþykktu þátttöku, en 6 lið skiluðu öllum gögnum, samtals 109 leikmenn og voru þau gögn notuð í úrvinnslu og niðurstöður. Notuð voru stöðluð skráningarblöð til að skrá meiðsli sem upp komu. Leikmenn sem meiddust skráðu meiðslin með hjálp sjúkraþjálfara, þjálfara og forráðamanna liðanna. Þjálfarar skráðu þátttöku leikmanna í æfingum og leikjum.

Niðurstöður:

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að alls voru skráð 86 meiðsli, 53 (61,6%) vegna slysa og 33 (38,4%) vegna álags. Tíðni meiðsla var 15.0 meiðsli á hverjar 1000 klst í keppni og 2.2 meiðsli á hverjar 1000 klst á æfingum. Hæst var hlutfall meiðsla í hnjám eða 24,4% af heildarfjölda meiðsla, þá á mjóbaki/spjaldhrygg/mjaðmagrind eða 17,2% og því næst ökklum og á fótum/tám 11,6% hvort. Hlutfall bráðra meiðsla var hæst í hnjám (26,4%) og hæst var hlutfall álagsmeiðsla á mjóbaki/spjaldhrygg/mjaðmagrind (33,3%). Algengustu áverkarnir urðu á liðböndum og sinum. Útileikmenn urðu hlutfallslega fyrir flestum meiðslum, en markverðir fæstum.

Ályktun:

Meiðslatíðni í handknattleik karla á Íslandi er svipuð og í sambærilegum eldri rannsóknum. Hins vegar vekur há tíðni áverka á mjóbaki/spjaldhrygg/mjaðmasvæði upp spurningar um þjálfunaraðferðir og undirbúning hjá íslenskum handknattleiksmönnum.

 

Skjöl tengd rannsókn: