Sjúkraþjálfun

Áður en farið er í sjúkraþjálfun er æskilegt að sjúklingur fái beiðni fyrir sjúkraþjálfun frá lækni. Þá beiðni skal hafa meðferðis til sjúkraþjálfara. Þó er hægt að koma í sjúkraþjálfun í allt að 6 tíma á hverjum 365 dögum án beiðni.

Ekki þarf að senda beiðni vegna sjúkraþjálfunar til Sjúkratrygginga Íslands nema um sé að ræða: Langtímameðferð (ákveðin í samráði við sjúkraþjálfara eða lækni), heimasjúkraþjálfun eða þjálfun vegna slysa sem bótaskyld eru hjá Sjúkratryggingum Íslands. Í slíkum tilfellum sendir sjúkraþjálfarinn beiðnina til Sjúkratrygginga Íslands.

Meðferðarform

 • Skoðun (fyrsti tími)
  Sjúklingur er almennt skoðaður við fyrstu komu til sjúkraþjálfa og greiðir sérstakt skoðunargjald fyrir það.
 • Einföld meðferð
  Ein tegund meðferðarforms þar sem leitast er við að beita gagnreyndri vitneskju á aðferðum innan sjúkraþjálfunar.
 • Almenn meðferð
  Sjúkraþjálfun á stofu, þar með talin meðferð barna yngri en 12 ára og þung meðferð.
 • Heimasjúkraþjálfun
  Forsenda fyrir heimasjúkraþjálfun er að fram komi á beiðni læknis að óskað sé eftir heimasjúkraþjálfun. Sjúkraþjálfari þarf að sækja fyrirfram um þátttöku Sjúkratrygginga í kostnaði við heimasjúkraþjálfun. Sjúklingur greiðir sama gjald fyrir heimasjúkraþjálfun og vegna sjúkraþjálfunar á stofu. Sjúkratryggingum Íslands er þó heimilt að fella niður greiðsluþátttöku sjúklings í heimasjúkraþjálfun ef um er að ræða mjög alvarlegt sjúkdómsástand (t.d. krabbamein eða Parkinsonssjúkdóm á lokastigi) eða mjög alvarlega fötlun.
 • Hópþjálfun
  Miðað er við að 2-10 einstaklingar séu í hópþjálfun á sama tíma. Meðferð taki a.m.k. 45 mínútur.