Skip to main content
FræðslaÍþróttameiðsl

Stoðkerfisáverkar

Með október 9, 2018No Comments

Hver sem er getur orðið fyrir áverka á stoðkerfi, hvort sem er keppnisíþróttafólk eða almenningur við vinnu og dagleg störf. Um er að ræða tvær megin gerðir áverka, annars vegar áverka vegna slysa og hins vegar áverka vegna of mikils álags.

Áverkar vegna slysa

Þessir áverkar eru algengir í hópíþróttum þar sem návígi eru tíð og/eða mikið um snöggar hreyfingar og stefnubreytingar. Oftast er auðvelt að greina áverka vegna slysa þar sem ástæðan er gjarnan augljós og áverkinn afmarkaður. Meðferð beinist því nær eingöngu að meininu.
Ýmsir utanaðkomandi þættir geta aukið slysahættu s.s. vallarskilyrði, veður og útbúnaður. Einnig geta undirliggjandi kvillar aukið líkur á slysum.

Áverkarnir eru margs konar s.s.:

 • Sina- og liðbandaslit
 • Beinbrot
 • Tognanir/maráverkar
 • Skurðir
 • Heilahristingur

Bráðameðhöndlun miðar að því að hindra mikla blæðingu í vef og þarf að eiga sér stað sem fyrst eftir að meiðsl verða þar sem mesta blæðingin á sér stað á fyrstu 10 mínútunum eftir óhappið. Mikilvægt er að fylgja meðferðinni eftir með nákvæmari skoðun.

Álagsáverkar

Álagsáverkar eru oft til komnir vegna samspils margra ólíkra þátta og því eru orsakir þeirra ekki eins augljósar og orsakir slysa. Álagsáverkar eru hvað algengastir hjá keppnisíþróttafólki þar sem fer saman áköf og umfangsmikil þjálfun en þessir áverkar þróast gjarnan við einhæft og síendurtekið æfingaálag t.d. í langhlaupum, stökkum, kast- og boltagreinum. Orsakaþáttum álagsáverka má skipta í tvennt, ytri og innri þætti.
Ytri orsakir álagsáverka eru t.d. rangt/mikið æfingaálag, rangur/slitinn útbúnaður, veður, slæm vallarskilyrði.
Innri orsakir álagsáverka eru t.d. hryggskekkja, há/lág rist, mislangir fótleggir, vöðvamisræmi, slakt líkamlegt atgervi o.fl.

Algengir álagsáverkar:

 • Beinhimnubólga
 • Hnéáverkar, s.s. Jumper´s knee
 • Hásinabólga
 • Festumein við axlarlið
 • Tennis/golfolnbogi
 • Ýmis mjóbaksvandamál
 • Fótamein, s.s. Plantar fascitis

Meðferð álagsmeiðsla beinist að mörgum ólíkum þáttum. Meðhöndla þarf einkenni einstaklingsins en til að varanlegur bati náist er lykilatriði að greina og uppræta orsakavalda meinsins. Fyrirbyggjandi aðgerðir geta verið t.d. góður útbúnaður, rétt þjálfun með tilliti til umfangs og álags. Huga þarf að aðstæðum hverju sinni (veður, undirlag) og einnig að þáttum eins og næringu og hvíld svo eitthvað sé nefnt.