Álagsmeiðsli, hvað er það?

Til baka

Í knattspyrnu geta komið fyrir margar gerðir af áverkum. Bráðaáverkar eru trúlega algengastir eins og t.d. tognarnir og mar/högg áverkar, sem gerast við eitt afmarkað atvik í leik eða æfingu. En oft fara leikmenn að finna fyrir verkjum/óþægindum eftir álag/æfingar án þess að neitt hafi komið fyrir. Verkurinn versnar svo oft við áframhaldandi álag. Ef þetta er tilfellið þá gæti hér verið um álagseinkenni að ræða (Overuse syndrome). Hér áður fyrr var þetta oft talið vera vaxtarverkir hjá börnum og unglingum enda voru þessir krakkar oft mjög virkir.

Þetta fyrirbæri er í raun bólga í vef (vöðva, sin, beini, bandvef) sem hefur orðið fyrir of miklu álagi og álagið valdið smá trosnun/tognun/sliti í vefnum. Vefurinn fær síðan ekki næga hvíld til að gera við skemmdina áður en að næstu æfingu kemur og þá verður meiri skemmd og þannig vindur þetta upp á sig þar til íþróttamaðurinn gefst upp á verknum og hvílir eða leitar sér faglegrar hjálpar.

Algeng álagseinkenni í knattspyrnu eru t.d. beinhimnubólga framan á leggnum, verkir ofan eða neðan við hnéskel, svokölluð hlaupara- og hopparahné (runners/jumpers knee), þreytubrot í beinum, hásinabólgur, náratognun (ef ekki er hægt að tengja tognunina við eitt ákveðið atvik þá getur verið um álagseinkenni að ræða).

Hvað veldur álagseinkennum? Hægt er að skipta því í tvo þætti, innri og ytri ástæður. Innri ástæður eru mismunandi líkamsgerð okkar eins og t.d. staða fóta (plattfótur/ há rist), mislangir fótleggir, hryggskekkja, að vera hjólbeinóttur/kiðfættur, misræmi í vöðvum (mun sterkari framan í læri samanborið við aftan í læri) svo eitthvað sé nefnt. Eitthvað sem gerir það að verkum að líkaminn þarf að beita sér aðeins öðruvísi eða vinna meira en ella. Ytri þættir eru hlutir eins og lélegur skóbúnaður, að skipta oft í viku um æfingaundirlag (parket, möl, gervigras), rangt æfingaálag og/eða rangar æfingar, að fara of geyst af stað eftir t.d. meiðsli eða langt frí.

Ef íþróttamaður er kominn með álagmeiðsl er mjög mikilvægt að draga úr álaginu. Það þarf ekki endilega að hætta æfingum alveg, en draga það mikið úr/stýra álaginu þannig að hægt sé að æfa alveg verkjalaust, til að ýfa ekki upp einkennið aftur. Gamla góða “no pain no gain” á ekki við hér!! Sé ekki hægt að æfa án verkja þá ber að taka sér hvíld frá æfingum í einhvern tíma. Mikilvægast er að fá rétta greiningu og finna út hvaða þættir eru að valda einkennunum. Leitið því til fagmanns eins og læknis eða sjúkraþjálfara sem getur greint hvaða innri eða ytri þættir eru að skapa vandamálið. Bólgueyðandi meðferð hjálpar oft mikið, eins og bólgueyðandi lyf eða bólgueyðandi gel/krem sem borið er á svæðið. Kæling og síðar hitameðferð á svæðið ef þarf og hugsanlega sjúkraþjálfun sé tilfellið það slæmt. En aðalatriðið er að hlusta á hvað líkaminn er að segja þér. Verkur er alltaf merki um að verið sé að ofbjóða einhverju í líkamanum. Hlustaðu og taktu mark á honum. Leitið ráða hjá fagfólki um hvernig best sé að stilla álagi í hóf. Góð þumalfingursregla er að auka ekki álag meira en um 10% á viku til að gefa líkamanum tækifæri til að aðlagast.