Hásinavandamál

Til baka

Álagstengdir verkir í hásin eru algengt vandamál hjá hlaupurum en einnig vel þekkt hjá boltaíþróttafólki, golfurum og göngufólki. Auk verkja í hásin við álag kemur stundum kúla/bólguhnútur á sinina sem er aumur þegar ýtt er á. Viðkomandi er haltur fyrst eftir að farið er framúr á morgnana en svo hverfur/minnkar verkurinn gjarnan eftir nokkrar mínútur.

Orsakir
Orsakir hásinavandamála eru ekki full rannsakaðar en æfingaálag er stór áhættuþáttur. Mjög algengt er að æft sé á of miklu álagi eða að álag sé aukið of hratt. Skóbúnaður, skekkjur í fótum og vöðvastífleiki eru þættir sem einnig geta haft áhrif og ber að skoða og vinna með ef við á.

Almennar ráðleggingar
Mikilvægast er að draga úr því álagi sem veldur verkjunum eða breyta um álag með því t.d. að hjóla eða synda í stað þess að hlaupa, hins vegar er ekki heppilegt að stoppa og gera ekki neitt. Nauðsynlegt er að teygja vel á kálfavöðvum eftir álag og vanda val á skóbúnaði. Ef einkenni lagast ekki á nokkrum vikum ber að leita álits hjá fagmanni.