Slit á fremra krossbandi.

Til baka

Slit á fremra krossbandi

Fremra krossbandið liggur frá neðanverðum lærlegg að ofanverðum sköflungi (sjá Mynd 1). Helsta hlutverk þess er að koma í veg fyrir að sköflungurinn renni fram ACL mynd 1eða snúist miðað við lærlegginn auk þess sem það hjálpar til við hliðlægan stöðugleika. Fremra krossbandið gegnir því mjög mikilvægu stöðugleikahlutverki í hnénu og hefur mikil áhrif þegar það slitnar.

 

Einkenni

Þegar krossbandið slitnar finnst gjarnan, og heyrist jafnvel, smellur. Í flestum tilvikum bólgnar hnéð töluvert og getur bólgan aukist í nokkrar klukkustundir á eftir með tilheyrandi verkjum. Þetta á þó ekki alltaf við og eru dæmi um það að hnéð bólgni lítið sem ekkert og viðkomandi finni því lítið sem ekkert til.

Vegna þess hve mikilvægu stöðugleikahlutverki fremra krossbandið gegnir upplifa þeir sem það hafa slitið að hnéð sé óstöðugt og hafa það gjarnan á tilfinningunni að hnéð muni gefa undan við þungaburð.

Orsakir

Fremra krossbandið er það liðband í hnénu sem algengast er að slíta og verður slitið oftast við íþróttaiðkun eða í útivist af einhverju tagi. Í 70-80% tilvika slitnar ACL mynd 2krossbandið án snertingar (noncontact), t.d. við lendingu eftir stökk þar sem hnéð er of beint (í yfirréttu) eða hnéð er bogið og leitar inn á við (valgus). Eins er algengt að slitið verið við gabbhreyfingar eða aðrar snöggar stefnu- eða hraðabreytingar.

Í hinum 20-30% tilvika slitnar krossbandið við áverka (contact). Þá er yfirleitt um að ræða utanaðkomandi áverka/högg sem þvingar hnéð inn á við eða í mikla yfirréttu.

Almennar ráðleggingar

RICE-meðferðinni ætti að beita sem fyrst eftir að viðkomandi slasar sig. Í henni felst hvíld (rest), kæling (ice), þrýstingur (compression) og hálega (elevation) og er hægt að lesa sér til um meðferðina hér á heimasíðunni okkar undir Fræðsla – RICE meðferðin. Ef grunur leikur á sliti á fremra krossbandi, t.d. ef viðkomandi upplifir að hnéð sé laust eða gefi undan við þungaburð, ætti hann/hún að forðast snöggar hreyfingar og gera hlé á íþróttaiðkun og annarri hreyfingu sem krefst álags á hnéð. Einnig er ráðlegt að leita ráða hjá fagmanni (lækni eða sjúkraþjálfara) eins fljótt og auðið er. Framhaldið er svo ákveðið út frá skoðun í samráði við bæklunarlækni.

Skrifað af Sólveigu Þórarinsdóttur sjúkraþjálfara.