Proximal effects of unloader bracing for medial knee osteoarthritis – analyses of muscle activation and movement patterns at the hip during walking.

Til baka

Höfundur:

Freyja Hálfdanardóttir

Inngangur:

Talið er að einstaklingar með slit í miðlæga hluta hnjáliðar gangi með auknum bolsveiflum til að draga úr álagi á miðlæga hluta hnjáliðarins. Slíkar uppbótarhreyfingar gætu haft áhrif á vöðva-virkni og álag á liði í ganglimum og þar með einnig haft áhrif á hættu á að slit þróist í fleiri liðamótum. Álagsléttandi hnéspelkur eru notaðar til að draga úr einkennum slitgigtar sem eingöngu er bundin við annan hluta hnjáliðarins. Engu að síður er lítið vitað um möguleg áhrif álagsléttandi hnéspelkna á lífafl-fræðilega þætti í öðrum liðamótum í ganglimum og virkni í fráfærsluvöðvum mjaðmaliða sem geta haft áhrif á bolsveiflur. Hingað til hafa flestar rannsóknir á virkni spelkanna beinst að eldra fólki en mikilvægi spelkumeðferðar er væntanlega mest fyrir fólk undir 60 ára. Markmiðið með þessari rannsókn var að skoða hreyfingar bols og mjaðmaliða með lífaflfræðilegum aðferðum og greina vöðva-virkni í fráfærsluvöðvum mjaðma hjá tiltölulega ungum og virkum einstaklingum með slit í miðlæga hluta hnjáliðar. Einnig að kanna áhrif af álagsléttandi hnéspelku (UnloaderOne®) á þessa þætti.

Aðferð:

Úrtak rannsóknarinnar var 17 karlar (40-60 ára) með staðfest slit í miðlæga hluta hnjáliðar (II.-III. gráðu Kellgren-Lawrence) sem höfðu fengið læknisbeiðni um álagsléttandi hnéspelku. Viðmiðunarhópur samanstóð af 14 körlum án einkenna um slitgigt í hné. Hreyfimunstur og kraftvægi voru metin með þrívíddargöngugreiningu. Rannsóknarhópurinn var mældur með og án hnéspelku innan 48 tíma frá því að þeir fengu spelkuna og aftur að 4 vikum liðnum. Jafnlengdarstyrkur fráfærsluvöðva mjaðmar var mældur og rafvirkni m. gluteus medius (Gmed) og m. tensor fasciae latae (TFL) metin með yfirborðs vöðvarafriti. Árangur meðferðar var metinn með KOOS spurningakvarða og rannsóknarhóp skipt í tvennt, responders (R) og non-responders (NR) eftir skilgreiningu OARSI á hvort klínískt martækur árangur náðist eða ekki. Í tölfræðigreiningu voru notuð fylgnipróf, t-próf og dreifnigreining fyrir endurteknar mælingar og alpha ákveðið 0,05.

Niðurstöður:

Hóparnir voru sambærilegir hvað varðar aldur, líkamsþyngdarstuðul og staðlaðan styrk í fráfærsluvöðvum mjaðma. Skor á sjálfsmats kvörðum um verki og einkenni batnaði almennt hjá rannsóknarhópnum (p<0,05) en svörunin var breytileg. Bolhalli að stöðufæti mældist minni við hælslag (p=0,015) hjá báðum rannsóknarhópunum og seinkun varð á að bolhalli færðist frá stöðuhlið yfir á gagnstæða hlið, miðað við samanburðarhóp. Einnig var R hópur með stærra hreyfiútslag á bolhreyfingum í frontal plani en bæði NR og viðmiðunarhópur. Ekki mældist munur milli hópa eða hliða á liðferlum og kraftvægi um mjaðmaliði og engar breytingar fundust á þessum þáttum að 4 vikum liðnum. Í upphafi rannsóknar mældist ekki marktækur munur milli hópa eða hliða á hámarks virkni í Gmed án spelku og hámarks virkni TFL var meiri hjá R en viðmiðunarhóp (p<0,001) og NR (p<0,001). Meiri vöðvavirkni mældist í Gmed hjá R hóp við að nota spelkuna (p<0,01).

Ályktun:

Þrátt fyrir almenna hækkun á skori á sjálfsmatskvörðum svöruðu ekki allir þátttakendur spelkumeðferð. Hreyfiútslag bols í frontal plani minnkaði lítillega en þó tölfræðilega marktækt milli mælinga sem gæti haft áhrif á kraftvægi um hné vegna þess hve stór vogararmur bolsins er. Þeir sem náðu árangri með álagsléttandi hnéspelku á 4 vikum virtust beita mjaðmavöðvum ólíkt þeim sem ekki náðu árangri. Hugsanlega náðu þeir að nýta vöðvana á einhvern hátt til að hafa áhrif á álag og einkenni í hné. Með stærri rannsókn mætti hugsanlega greina mælanlega þætti sem gætu spáð fyrir um hvaða sjúklingar eru líklegir til að hafa gagn af meðferð með álagsléttandi spelku.

Skjöl tengd rannsókn: