Fara í efni

Tengsl stoðkerfisverkja og hreyfingar.

Til baka

Höfundur:

Eygló Traustadóttir sjúkraþjálfari

Ágrip

Bakgrunnur: Stoðkerfisverkir eru algengir hjá ungu fólki. Þeir greinast í börnum og algengið eykst fram á fullorðinsár. Stoðkerfisverkir eru algengari meðal kvenna en karla og algengustu verkjasvæðin eru mjóbak, háls og herðar. U-laga tengsl eru milli hreyfingar og stoðkerfisverkja, þannig að þeim sem hreyfa sig minnst og mest er hættara við verkjum en hinum. Þá hafa rannsóknir einnig sýnt tengsl stoðkerfisverkja við líkamsfitu og þrek.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var að kanna algengi stoðkerfisverkja hjá ungu fólki og skoða hvort tengsl væru milli verkja og hreyfingar, þreks, beinþéttni og líkamsfitu. Þá var líka skoðað hvort tengsl væru milli hreyfingar, þreks og líkamsfitu fyrir 8 árum og stoðkerfisverkja í dag.

Framkvæmd: Alls tóku 457 þátt í rannsókninni. Þátttakendur voru 17 og 23 ára og höfðu allir tekið þátt í rannsókninni Lífstíll 9 og 15 ára Íslendinga árið 2003. Þau svöruðu spurningalista m.a. um stoðkerfisverki, mældur var blóðþrýstingur, hæð, þyngd, húðfellingar og mittismál. Þá tóku þau hámarks þrekpróf á hjóli, voru með hreyfimæla í viku og fóru í DXA skann fyrir beinþéttni og fituhlutfall.

Niðurstöður: Niðustöður sýndu að stoðkerfisverkir eru nokkuð algengir í ungu fólki. Hlutfallslega var algengast að þau væru með verki í neðra baki, næst algengast í herðum og öxlum, svo í hnjám og í efra baki. Marktækt fleiri konur en karlar voru með verki í herðum og öxlum, úlnliðum, efra baki, neðra baki og mjöðmum og marktækt fleiri í yngri en eldri árganginum voru með verki í hnjám og ökklum. Eftir að leiðrétt var fyrir kyni voru marktæk jákvæð tengsl milli heildartíðni stoðkerfisverkja og fituprósentu (HR=1,014 Cl:1,000-1,029, p=0,047) og líkamsþyngdarstuðul (HR=1,0 Cl:1,010-1,055, p=0,003). Tvær breytur frá rannsókninni 8 árum sýndu áhugaverð tengsl sem voru þó ekki marktæk; húðsumma (HR=1,004 95% Cl 1,000-1,008 og p=0,051) og þrek (HR=0,815 95% Cl 0,655-1,161 og p=0,068). Varanleiki stoðkerfisverkja sýndi marktæk tengsl við líkamsþyngdarstuðul bæði í dag (HR=1,027 95% Cl 1,003-1,052 og p=0,025) og fyrir 8 árum (HR=1,036 95% Cl 1,003-1,072 og p=0,033).

Ályktun: Það má því draga þá ályktun að líkamsþyngdarstuðull og fituhlutfall bæði í dag og fyrir 8 árum hafi mest áhrif á algengi stoðkerfisverkja hjá ungu fólki í dag.